Fara í efni

Nína Dögg Filippusdóttir Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2017

Nína Dögg Filippusdóttir leikkona var föstudaginn 20. janúar sl. tilnefnd Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2017.

Nína Dögg Filippusdóttir leikkona var föstudaginn 20. janúar sl. tilnefnd Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2017. Við athöfnina, sem fram fór í Bókasafni Seltjarnarness fyrr í dag, tilkynnti Nína Dögg að hún vildi ánafna verðlaunafénu, að upphæð einni milljón króna, til eflingar skapandi starfs ungmenna á Seltjarnarnesi með áherslu á sviðslistir. Fyrirhugað er að bjóða eldri grunnskólanemum að vinna með fagfólki næsta haust og sýna afraksturinn á Menningarhátíð Seltjarnarness í október næstkomandi. Einnig hyggst Bæjarlistamaðurinn leggja bæjarfélaginu lið í fjölbreyttu menningar- og listalífi þess á komandi ári.

Það var formaður menningarnefndar, Sjöfn Þórðardóttir, sem afhenti Nínu Dögg viðurkenninguna og verðlaunaféið og sagði m.a. við það tækifæri: „Nína Dögg Filippusdóttir hefur sýnt og sannað að hún er meðal okkar fremstu og hæfileikaríkustu leikurum í dag. Nína Dögg hefur allt það til að bera sem prýtt getur bæjarlistamann, hún hefur ótvíræða hæfileika, listrænan metnað og sannfæringarkraft. Brennandi ástríða og einstök vandvirkni einkenna sérhvert verk sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er framúrskarandi listamaður sem fer alla leið.“

Nína Dögg Filippusdóttir leikkona er fædd 25. febrúar 1974. Hún útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2001.

Um þessar mundir leikur hún í sýning Þjóðleikhússins Óþelló og framhaldsþættinum Föngum, sem sýndur er á RÚV og byggir á hugmynd hennar og Unnar Aspar Stefánsdóttur.

Nína er einn af stofnendum leikhússins Vesturports. Þar hefur hún m.a. leikið í Rómeó og Júlíu, Brimi, Woyzek, Hamskiptunum, Kommúnunni og Faust. Hún hefur ferðast víða með Vesturporti og m.a. leikið bæði í London og víðar á leikferðum leikhópsins. Hlutverk hennar skipta tugum frá því hún útskrifaðist en í Borgarleikhúsinu lék hún í Kryddlegnum hjörtum, Púntilla og Matta, Fjölskyldunni, Dúfunum og leikritinu Furðulegt háttarlag hunds um nótt. Hjá Þjóðleikhúsinu hefur Nína leikið í Sporvagninum Girnd, Fjalla-Eyvindi, Rambó 7 og Átta konum. Þá hefur hún leikið í Hafnarfjarðaleikhúsinu og í uppsetningu breska leikhópsins Kneehigh sem ferðaðist um Bretland.

Nína hefur leikið í kvikmyndunum Villiljósi, Hafinu, Börnum og Foreldrum, Sveitabrúðkaupi, Kóngavegi og Brimi og í sjónvarpsþáttunum Föngum, Ófærð, Stelpunum og Heimsendi.

Nína Dögg var valin Shooting Star 2003. Hún hefur verið tilnefnd til Grímuverðlaunanna sem og Edduverðlaunanna og hlotið verðlaun í flokki leikkona ársins. Nína hlaut styrk úr Minningasjóði Frú Stefaníu Guðmundsdóttur árið 2005.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?