Fara í efni

Nýr leikskóli rís á Seltjarnarnesi

Markvisst hefur verið unnið að undirbúningi nýrrar leikskólabyggingar á Seltjarnarnesi og þessa dagana er verið að kynna afrakstur þeirrar vinnu. Frumhönnun leikskólans "Undrabrekku" er að klárast og fullnaðarhönnun að taka við. Ráðgert að framkvæmdum ljúki á seinni hluta árs 2025.
Yfirlitsmynd af fyrirhuguðum leikskóla og tengibyggingu við Mánabrekkur
Yfirlitsmynd af fyrirhuguðum leikskóla og tengibyggingu við Mánabrekkur

Byggð verður ný leikskólabygging ásamt tengibyggingu auk þess sem endurbætur verða gerðar á Mánabrekku og Sólbrekku.

Undanfarna mánuði hefur markvisst verið unnið að undirbúningi nýrrar leikskólabyggingar á Seltjarnarnesi enda er, samkvæmt Þór Sigurgeirssyni bæjarstjóra, bygging leikskóla eitt af stóru forgangsmálum bæjarins. Þessa dagana er verið að kynna afrakstur þeirrar vinnu og er Þór mjög ánægður með það upplegg sem kynnt er til sögunnar. „Það hafa verið til skoðunar nokkrar útfærslur á þessari byggingu, en nú liggur fyrir ábyrg ákvörðun um að byggja nýja um 1600 m2 byggingu og nýta jafnframt fyrirliggjandi byggingar á svæðinu, þ.e. að tengja við húsnæði Mánabrekku og gera endurbætur á Sólbrekku“ segir Þór.

Eins og kunnugt er var haldin verðlaunasamkeppni um nýjan leikskóla á Seltjarnarnesi árið 2018 þar sem Andrúm arkitektar hlutu fyrstu verðlaun fyrir hönnun sína á „Undrabrekku“. Nú er svo komið að frumhönnun leikskólans er að klárast og nánari útfærsla og fullnaðarhönnun að taka við. Stefnt er að því að allar meginlínur hönnunar liggi fyrir í haust, að þá verði farið í útboð á byggingunni og framkvæmdir hefjist snemma á næsta ári. Áformað er að framkvæmdum ljúki á seinni hluta ársins 2025. Andrúm arkitektar munu annast alla hönnunarstjórn verkefnisins, þ.m.t. arkitekta- og verkfræðihönnun auk umsjónar með gerð verklýsinga vegna útboðs. Ríkiskaup mun sjá um framkvæmd útboða vegna allra verklegra framkvæmda.

Endanleg hönnun er þróun á verðlaunatillögunni

Arkitektar hjá Andrúm arkitektum hafa þróað samkeppnistillöguna með aðkomu starfshóps á vegum bæjarins. Í þeim hópi eru auk bæjarstjóra fulltrúar frá leikskólanum og bæjaryfirvöldum þ.e. þau Margrét Gísladóttir leikskólastjóri, Baldur Pálsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs, Brynjar Þór Jónasson sviðsstjóri Skipulags- og umhverfissviðs, Karen María Jónsdóttir varabæjarfulltrúi og Örn Viðar Skúlason sem jafnframt er formaður bygginganefndar leikskólans. „Við hófum ákveðna undirbúningsvinnu við hönnun leikskólans strax síðasta sumar og um áramótin var vinnan sett í formlegt ferli með stofnun byggingarnefndar“ segir Örn Viðar. „Við leggjum mikla áherslu á gott samráð við stjórnendur leikskólans og fagfólk bæjarins í hönnunarferlinu og varðandi alla vinnu við útfærslu leikskólans. Haldið hefur verið í allar lykilhugmyndir verðlaunatillögunnar þó að skólinn hafi reyndar minnkað frá upphaflegri áætlun samkeppninnar. Þau markmið sem við höfum haft að leiðarljósi er að bæta húsnæðismál leikskólans með samnýtingu við Mánabrekku og Sólbrekku. Við viljum uppfylla öll helstu viðmið um aðstöðu fyrir kennara og fjölda barna á deild og gera leikskólann í stakk búinn að taka á móti börnum við 12 mánaða aldur“ segir Örn Viðar ennfremur.

Hjarta í miðjunni

Samkvæmt arkitektunum hefur meginstefið frá upphafi verið að skapa samfélag og umgjörð um þann ævintýraheim sem leikskólinn er og það hvernig börn upplifa og kanna sitt umhverfi – á sama tíma og hönnun tekur mið af því að leikskólinn er stór vinnustaður og því þarf að skapa gott vinnuumhverfi. Hugsun um vellíðan og heilsu að leiðarljósi er leiðandi þáttur í hönnun byggingarinnar, það er hugað að góðri nýtingu á dagsbirtu og ljósgæðum og sérstaklega hugað að hljóðhönnun því góð hljóðvist er einn af þeim þáttum sem hafa hvað mest áhrif á vellíðan fólks – barna og starfsfólks. Deildirnar, hver með sínu haganlega skipulagi, tengjast allar miðjunni – Hjartanu – sem er salur þar sem allt mætist og opnar sýn mót leiksvæði í suðri. Byggingin sjálf tekur sér stöðu á horni Suðurstrandar og Nesvegar og leggur sitt af mörkum við að skapa fallega götumynd á þessum mikilvæga stað á krossgötum bæjarins – og skapar á sama tíma skjól fyrir vel þekktri norðanátt og hávaðamengun frá umferð.

Góður rómur gerður að tillögunni meðal starfsmanna

Í síðustu viku var haldin sérstök kynning fyrir allt starfsfólk Leikskóla Seltjarnarness þar sem Örn Viðar sagði frá verkefninu og tímalínunni. Arkitektarnir sýndu teikningar af nýjum leikskóla og upplýstu um hugsun og úfærslu hönnunarinnar auk þess að svara spurningum. Margrét leikskólastjóri var einnig til svara varðandi áherslur og innra skipulag en hún er eins og áður segir þátttakandi í vinnuhópnum. „Við höfum átt mjög gott samstarf við hönnuðina og aðra sem komið hafa að þessu verkefni. Það er gaman að vinna að svona verkefni þegar maður finnur að á okkur, sem vinnum á staðnum og með börnunum, er hlustað og við getum haft bein áhrif á útfærsluna“ segir Margrét. „Starfsemi leikskólans hefur verið á nokkrum stöðum og við frekar þröngar aðstæður. Með þessari byggingu verður aðstaðan öll mun betri. Gott vinnurými kennara, góð aðstaða á deildunum og gott sameiginlegt rými skapa mikla möguleika á lifandi starfi fyrir börnin. Tengibyggingin við Mánabrekku gerir svo starfsemi húsanna nánari og aðgengilegri“ segir Margrét ennfremur. Kynningin gekk vel og ekki annað að sjá og heyra af spurningum og spjalli í kjölfarið en að ánægja og tilhlökkun ríki á meðal starfsmanna leikskólans. Þessa dagana er einnig verið að kynna tillögurnar víðar innan bæjarins auk þess sem bæjarbúum gefst kostur á að kynna sér málið m.a. á heimasíðu bæjarins.

Mikil lyftistöng fyrir Seltjarnanes

Aðspurður segir Þór að það sé virkilega gaman að sjá hversu vel allur undirbúningurinn gengur og að það verði spennandi að fylgjast með framkvæmdunum. Það er mikilvægt að hafa í huga að með fyrirhugaðri byggingu tvöfaldast vinnurými leikskólans, en Mánabrekka og Sólbrekka eru um 1.300 m2 og því munu um um 1.600 m2 bætast við húsrými leikskólans og starfsemin öll rúmast á einum stað. Samhliða þessum áformum verður ráðist í endurbætur á bæði Mánabrekku og Sólbrekku og allur aðbúnaður bættur. „Þetta verður því bylting fyrir starfsemi leikskólans í heild sinni og ég er sannfærður um að ný og glæsileg bygging verður mikil lyftistöng fyrir leiksskólastarf bæjarins“ segir Þór.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?