Fara í efni

Nýr verkefnastjóri umhverfismála

Helga Hvanndal Björnsdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri umhverfismála hjá Seltjarnarnesbæ. Starfið felur m.a. í sér umsjón með fegrun og ásýnd sveitarfélagsins, hvers kyns náttúru- og umhverfismálum, yfirumsjón með vinnuskólanum, endurvinnslu- og úrgangsmálum sem og ýmsum stefnumarkandi verkefnum og fræðslu.
Helga Hvanndal Björnsdóttir
Helga Hvanndal Björnsdóttir

Helga sem hóf störf nú í byrjun nýs árs var valin úr öflugum hópi umsækjenda. Helga er með M.Sc. gráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands og BA gráðu í heimspeki með áherslu á umhverfissiðfræði frá sama skóla. Helga hefur starfað í náttúruverndargeiranum í hartnær áratug og býr yfir góðri þekkingu á því sviði. Hefur starfað við landvörslu hjá Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarði víðsvegar um landið sem og við ýmiss störf tengd stjórnsýslu og skipulagi innan friðlýstra svæða. Helga hefur tekið mikinn þátt í félags- og stjórnarstörfum tengdum umhverfismálum, skipulagt viðburði og staðið að umhverfisfræðslu fyrir ungmenni.

Verkefnastjóri umhverfismála er nýtt starf á Skipulags- og umhverfissviði hjá Seltjarnarnesbæ en er í raun þróun á starfi garðyrkjustjóra í takt við breytta tíma á sviði umhverfismála. Helstu verkefni sem starfið felur í sér er umsjón með ásýnd og fegrun bæjarins s.s. umhirða opinna og grænna svæða, gróðurs, leiksvæða og stofnanalóða bæjarins. Yfirumsjón með vinnuskóla Seltjarnarnesbæjar, ýmiss verkefni tengd friðlýstum náttúrusvæðum í samstarfið við Umhverfisstofnun og verndun fuglalífs. Aðkoma og framfylgd stefnumörkunar sveitarfélagsins í umhverfis- og loftslagsmálum, fræðsla og umsjon með úrgangsmálum sveitarfélagsins s.s. forvörnum, flokkun og endurvinnslu.

Seltjarnarnesbær býður Helgu Hvanndal velkomna til starfa. 


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?