Fara í efni

Nýtt fyrirkomulag í leikskólum Seltjarnarness tekur gildi 2026

Seltjarnarnesbær hyggst innleiða nýtt starfs- og námsumhverfi í leikskólum bæjarins á vorönn 2026. Með nýju fyrirkomulagi standa vonir til að draga megi, eins og framast er unnt, úr mönnunarvanda, viðhalda háu hlutfalli fagmenntaðra starfsmanna og styðja við farsæld barna.

Seltjarnarnesbær hefur ávallt lagt ríka áherslu á velferð barna og boðið upp á framúrskarandi leikskóla. Undanfarin misseri hafa orðið talsverðar breytingar á starfsumhverfi leikskóla og kröfur til faglegs starfs aukist. Þá hafa kjarasamningar falið í sér styttingu vinnuviku (36 klst.), aukinn undirbúningstíma og fleiri orlofsdaga. Á sama tíma hefur reynst erfitt að manna stöður og tryggja lögbundið hlutfall fagmenntaðra starfsmanna.

Til að mæta breyttu starfs- og rekstrarumhverfi leikskóla og tryggja stöðu leikskóla á Seltjarnarnesi í fremstu röð stendur til að innleiða nýtt fyrirkomulag sem mun taka gildi á vorönn 2026. Jafnframt verður gjaldskrá uppfærð í samræmi við breytingarnar.

Helstu markmið fyrirkomulagsins:

  • Tryggja gæði og stöðugleika leikskólaþjónustu
  • Viðhalda háu hlutfalli fagmenntaðra í leikskólum Seltjarnarness með því að bæta starfsumhverfi
  • Koma í veg fyrir skerðingu á þjónustu
  • Stytta vistunartíma barna og efla farsæld þeirra
  • Auka sveigjanleika á vistunartíma innan vikunnar

Með nýju fyrirkomulagi er reynt að koma í veg fyrir mönnunarvanda og takmarka líkur á því að grípa þurfi til lokunar vegna fáliðunar.

Nýrri gjaldskrá er ætlað að skapa svigrúm innan leikskólans til að mæta nýjum kröfum og bæta faglegt starf. Ný gjaldskrá hefur innbyggða hvata til styttri vistunartíma barna auk þess sem hún dregur úr fjölda barna sem mæta milli jóla og nýárs. Áfram verða afslættir milli skólastiga, systkinaafslættir, námsmannaafslættir og afslættir fyrir einstæða foreldra.

Um haustið 2024 hóf Seltjarnarnesbær heildarendurskoðun á starfsemi leikskólanna. Sviðsstjóri fjölskyldusviðs lagði fram minnisblað með tillögum um breytingar á opnunartíma, dvalartíma barna og skipulagi innri starfsemi leikskóla á Seltjarnarnesi. Tillögurnar voru til umfjöllunar á fundum skólanefndar í október og nóvember 2024 en gildistöku var frestað vegna verkfalla eftir samráð við fulltrúa foreldra og leikskólastjórnendur. Þráðurinn var tekinn upp aftur á fundum nefndarinnar á þessu ári og minnisblað fjármálastjóra um nýja gjaldskrá lagt fram á fundi þann 3. nóvember sl. Nefndin óskaði eftir frekara samráði við foreldra og stefnt að gildistöku á vorönn 2026. Boðað var til upplýsingafundar um fyrirliggjandi tillögur þann 13. nóvember sl. og glærukynning gerð aðgengileg fyrir foreldra sem ekki komust á fundinn. Tillögurnar voru einnig lagðar fram á fundi bæjaráðs í nóvember.

Upplýsingasíða og samráðsgátt:

Foreldrar hafa nú fengið sent kynningarbréf og samráðsgátt hefur verið opnuð hér á heimasíðu bæjarins ásamt upplýsingasíðu með helstu spurningum og svörum um tillögurnar sem liggja fyrir um hið nýja fyrirkomulag. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að koma athugasemdum og ábendingum sínum á framfæri í gegnum samráðsgáttina sem verður opin út miðvikudaginn 3. desember nk. 

Lagt er upp með að nýja fyrirkomulagið taki gildi 1. mars 2026 og að foreldrum verði mætt með skilningi og árangur metinn eftir reynslutímabil á vorönn 2026.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?