Fara í efni

Rúna Gísladóttir Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2000

RÚNA Gísladóttir myndlistarkona hefur verið valin bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2000. Þetta er í fimmta sinn sem valinn er bæjarlistamaður Seltjarnarness, en menningarnefnd Seltjarnarness stendur fyrir vali bæjarlistamannsins.

Tilnefningu bæjarlistamanns fylgir 500 þúsund króna starfsstyrkur. Tilgangurinn með vali bæjarlistamanns er að styðja listamenn búsetta á Seltjarnarnesi til frekari dáða á menningar- og listasviðinu og veita þeim viðurkenningu fyrir framlag sitt til bæjarfélagsins með listsköpun sinni. Viðfangsefni Rúnu í myndlistinni eru málverkið fyrst og fremst og myndraðir með ákveðnum minnum. Hún notar mikið íslensk form, landform, fiska og skreið, og tekur fyrir birtuskil og litabreytingar samkvæmt þeim og vinnur út frá formunum og birtuáhrifum á þau í ljóðrænum anda. Auk þess hefur Rúna verið að vinna collage-myndir.

Rúna Gísladóttir hefur stundað myndlist í nær 30 ár. Hún er fædd árið 1940. Hún lauk kennaraprófi árið 1962 og stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1978-1982 í málaradeild. Auk þess stundaði hún nám í myndlist í Noregi og hefur farið í námsferðir til Parísar og Amsterdam meðal annars. Rúna hefur rekið myndlistaskólann Mynd-mál á Seltjarnarnesi í 16 ár og kennt þar málun og teiknun. Rúna hefur haldið fjölmargar sýningar á verkum sínum, bæði einka- og samsýningar hér á landi og erlendis. Nú síðast hlaut hún Ryvarden 2000-stipendet, norskan styrk sem veittur er listamönnum ásamt dvöl í íbúð með vinnustofu í 4-6 vikur í Noregi en þaðan er Rúna nýkomin.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?