Fara í efni

Sólveig Pálsdóttir bæjarlistamaður Seltjarnarness 2019

Sólveig Pálsdóttir rithöfundur var útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness 2019 við hátíðlega athöfn á bókasafni Seltjarnarness föstudaginn 18. Janúar. Þetta er í 23ja sinn sem bæjarlistamaður Seltjarnarness er útnefndur en í fyrsta sinn sem að rithöfundur hlýtur þennan heiður.

SÓLVEIG PÁLSDÓTTIR – BÆJARLISTAMAÐUR SELTJARNARNESS 2019

Sólveig Pálsdóttir rithöfundur var útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness 2019 við hátíðlega athöfn á bókasafni Seltjarnarness föstudaginn 18. Janúar. Þetta er í 23ja sinn sem bæjarlistamaður Seltjarnarness er útnefndur en í fyrsta sinn sem að rithöfundur hlýtur þennan heiður.

Menningarnefnd Seltjarnarness sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Guðrún Jónsdóttir formaður menningarnefndar Sólveigu viðurkenningingarskjal ásamt starfsstyrk að upphæð 1.000.000 kr. sem fylgir nafnbótinni.

Sólveig hefur búið á Seltjarnarnesi til fjölda ára og ætíð gefið mikið af sér til menningarmála í bæjarfélaginu. Var meðal annars formaður menningarnefndar í 8 ár, á árunum 2002-2010 og kom á þeim tíma mörgum góðum menningartengdum verkefnum á koppinn. Sólveigu hefur ennfremur í gegnum tíðina verið trúað fyrir ýmsum störfum í nefndum og fagráðum er varða listir og menningu innan og utan Seltjarnarness.

Það er ekki ofsögum sagt að Sólveig er afar fjölhæf á sviði lista, skapandi greina og miðlunar. Hún er í grunninn menntuð leikkona frá Leiklistarskóla Íslands og starfaði sem slík auk þess að vera dagskrárgerðarmaður hjá RÚV frá 1982-1990. Sólveig leikur enn öðru hverju og lék m.a. í sjónvarpsþáttaröðunum Dagvaktin, Venjulegt fólk sem og Réttur 1 og Réttur 2. 

Á árinu 1996 lauk Sólveig almennri bókmenntafræði og kennsluréttindanámi frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað sem íslensku- tjáningar- og leiklistarkennari auk þess sem hún hefur haldið fjölda námskeiða fyrir einstaklinga og stjórnendur sem vilja bæta sig í samskiptum, sjálfstyrkingu, tjáningu og framkomu.

Frá árinu 2013 hefur Sólveig starfað sem rithöfundur. Þegar hafa komið út eftir hana fjórar glæpasögur sem allar hafa hlotið góða dóma og vinnur Sólveig nú að sinni fimmtu bók sem kemur út í haust. Fyrsta skáldsagan hennar, Leikarinn kom út árið 2012, Hinir réttlátu árið 2013, Flekklaus árið 2015 og Refurinn árið 2017. Bækur hennar hafa verið gefnar út erlendis og bíómynd eftir Leikaranum hefur verið í undirbúningi. Að auki vinnur breskt kvikmyndafyrirtæki að fjármögnun sjónvarpsþáttaraðar byggða á bókinni Refurinn. 

Sólveigu Pálsdóttur og fjölskyldu eru færðar innilegar hamingjuóskir með heiðursnafnbótina, Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2019 og munu Seltirningar að sjálfsögðu fá að njóta hæfileika hennar á árinu. 

Guðrún Jónsdóttir, Sólveig Pálsdóttir og Ásgerður Halldórsdóttir

Guðrún Jónsdóttir formaður menningarnefndar, Sólveig Pálsdóttir rithöfundur og bæjarlistamaður 2019 og Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?