Fara í efni

Velheppnaður 17. júní á Seltjarnarnesi

Það vantaði ekki þátttökuna, gleðina og gamanið á 17. júní hátíðinni. Frábær mæting var í skrúðgönguna þar sem mannfjöldinn marseraði undir fánahyllingu og lúðrablæstri. Bakkagarður iðaði af lífi og fjöri og allir sem fram komu vöktu mikla lukku sem og bátasiglingin.

Þjóðhátíðarstemning á Seltjarnarnesi

Það var svo sannarlega nóg um að vera á 17. júní á Seltjarnarnesi þegar að þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga var fagnað með pompi og prakt. Fánar blöktu um allan bæ og fjöldi fólks nýtti sér gott boð um bátasiglingu frá smábátahöfninni á vegum björgunarsveitarinnar Ársæls og siglingafélagsins Sigurfara. Afar fjölmenn skrúðganga gekk samstillt í takt við trommuslátt og lúðrablástur lúðrasveitar tónlistarskólans, frá leikskólanum að Bakkagarði, með fánabera fremsta í flokki. Í Bakkagarði var ævintýraheimur fyrir börnin með leiktækjum hvert sem litið var, hestaferðir í boði, kandífloss og pylsusala svo nokkuð sé nefnt.

Dagskráin á sviðinu var fjölbreytt og skemmtileg og gestir tóku vel undir

Jóhann Örn, betur þekktur sem Jói dans stýrði dagskránni og kom öllum í góðan gír. Þórdís Sigurðardóttir formaður menningarnefndar Seltjarnarness flutti hátíðarávarp og Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkona var fjallkonan 2023. Með glæsibrag frumflutti hún nýtt ljóð eftir Auði Jónsdóttur, Sólin úti á Nesi, sem samið var sérstaklega af þessu tilefni. Íþróttaálfurinn og Solla stirða úr Latabæ voru hoppandi hress á sviðinu og fengu stóra sem smáa með sér að hreyfa sig. Júlí Heiðar og Kristmundur Axel sungu nokkur af sínum vinsælustu lögum en þeir hafa verið í ofarlega á vinsældarlistum þjóðarinnar undanfarnar vikur. Sylvía Erla og Árni Beinteinn tóku svo við keflinu og sungu og dönsuðu með börnum lög sem allir þekkja. Hljómsveitin Karma Brigade sló svo botninn í hátíðardagskránna og fluttu nokkur frumsamin lög eftir hljómsveitarmeðlimi sveitarinnar. Smátt og smátt tíndist fólk svo úr Bakkagarði og átti vonandi áframhaldandi góðan þjóðhátíðardag eftir góða fjölskylduskemmtun á Seltjarnarnesinu.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?